Um samtökin

Matthildur, samtök um skaðaminnkun voru stofnuð í apríl árið 2022 og heita í höfuðið á Matthildi Jónsdóttur Kelley.

Í stjórn sitja sjö stjórnarmeðlimir, formaður, varaformaður, gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur.

Fjöldi sjálfboðaliða starfar hjá samtökunum, í samfélagsmiðlateymi, við þjónustu í verkefnum og í tilfallandi verkefnum. Að auki eru notendaráðgjafar fyrir hvert og eitt verkefni samtakanna. 

Tilgangur Matthildarsamtakanna;

  • Að auka þekkingu og vinna að framgangi skaðaminnkandi inngripa og úrræða á Íslandi, þar sem fagleg þjónusta og gagnreynd þekking er höfð að leiðarljósi.

  • Að standa vörð um mannréttindi fólks sem notar vímuefni.

  • Að stuðla að samstarfi við skaðaminnkunarsamtök og skaðaminnkandi þjónustur á norðurlöndum og á alþjóðavísu.

Matthildarsamtökin sinna víðtæku málsvarastarfi á opinberum vettvangi, líkt og í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og með umsögnum og álitum á málum innan stjórnsýslunnar. Samtökin veita einnig sérfræðiráðgjöf til þjónustuveitenda í málaflokknum og innan stjórnsýslunnar.

Samtökin reka tvær skaðaminnkandi þjónustur, Matthildarteymið og Reykur, og eru jafnframt að vinna að uppsetningu á heimasíðu um öruggari vímuefnanotkun.

Matthildarsamtökin hafa haldið fræðsluviðburði og námskeið með erlendum sérfræðingum á sviði vímuefnamála og skaðaminnkunar og skipulagt fundi með ráðherrum, embættisfólki, háskólasamfélaginu og notendum.


Viðburðir samtakanna

Fræðsluviðburðir og námskeið eru stór hluti af starfi Matthildarsamtakanna.

Ráðstefna um skaðaminnkun á Íslandi var haldin árið 2022. 13 erindi frá sérfræðingum, þjónustuveitendum og notendum á Íslandi, voru haldin á ráðstefnunni. Aðalfyrirlesari var Arild Knutsen, leiðtogi norsku notendasamtakanna Foreningen for human ruspolitikk.

Notendafundur og fræðsla var haldinn árið 2022. Notendur vímuefna á Íslandi var boðinn fræðsla um hlutverk notendasamtaka og mikilvægi persónulegrar reynslu í málsvarastarf. Arild Knutsen og John Melhus frá norksu notendasamtökunum Foreningen for human ruspolitikk, héldu fræðsluna og funduðu jafnframt með notendum.

Fræðsluviðburður um lágþröskulda efnagreiningu vímuefna fyrir notendur og snemmtæka viðvörun (e. early warning system) var haldinn árið 2023. Daan van der Gouwe, sérfræðingur í vímuefnamálum frá Trimbos stofnuninni í Hollandi, hélt erindið.

Þriggja daga grunnnámskeið í samþættri skaðaminnkandi meðferð með dr. Andrew Tatarsky, var haldið árið 2023. Námskeiðið var fyrir klíníska meðferðaraðila og var haldið í samstarfi við Heilshugar. 

Málþing um ópíóíðalyfjameðferðir; staða, áskoranir og framtíðarsýn var haldið árið 2024. Sex erindi voru á málþinginu frá þjónustuaðilum á Íslandi sem veita ópíóíðalyfjameðferðir. Aðalfyrirlesari var Thilo Beck, geðlæknir og yfirlæknir Arud, miðstöð fíknilækninga í Zürich.