Hvað er skaðaminnkun?
Skaðaminnkun er mannúðleg
og gagnreynd nálgun við vímuefnanotkun.
Skaðaminnkun vísar til stefnu, þjónustu og verklags (e. practices) sem miða að því að lágmarka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og lagaleg áhrif sem tengjast notkun á löglegum og ólöglegum vímuefnum, vímuefnastefnu og fíkniefnalöggjöf.
Skaðaminnkun er viðurkennd aðferðafræði innan fíknifræða og hafa Alþjóðlegar stofnanir, líkt og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópska vímuefnastofnunin (EUDA) og Sameinuðu þjóðirnar lagt áherslu á alhliða innleiðingu á skaðaminnkandi þjónustu í samfélögum og fangelsum.
Skaðaminnkun leggur fyrst og fremst áherslu á að draga úr þeim neikvæðu og skaðlegu afleiðingum sem geta fylgt notkun á vímuefnum, fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Skaðaminnkun er hugsuð sem viðbót við núverandi meðferðarúrræði og forvarnarstarf og undirstrikar mikilvægi þess að samfella sé í þjónustu við fólk sem notar vímuefni, óháð því hvar á vímuefnarófinu fólk er statt.
Eitt af grunngildum skaðaminnkunar er raunsæi og viðurkennir hugmyndafræðin þá staðreynd að margir sem nota vímuefni treysta sér ekki til eða vilja ekki hætta notkun á tilteknum tíma, vegna margvíslegra ástæðna. Af þeim ástæðum er nauðsynlegt að tryggja gott aðgengi að skaðaminnkandi þjónustu, þar sem lögð er áhersla á öryggi og heilbrigði fólks sem notar vímuefni.
Markmið skaðaminnkunar
Að aðstoða fólk við að halda lífi.
Að vernda líkamlega og sálræna heilsu fólks.
Að styðja fólk við jákvæðar breytingar.
Rannsóknir sýna að skaðaminnkandi inngrip og þjónusta eru árangursrík, örugg og fjárhagslega hagkvæm, í fjölbreyttum félagslegum, menningarlegum og efnahagslegum aðstæðum. Skaðaminnkandi inngrip eru auðveld í framkvæmd og leiða af sér sterk jákvæð áhrif á heilbrigði einstaklinga og samfélaga.
Í grunninn snýr skaðaminnkun að lýsheilsuinnigripum og mannréttindum fólks sem notar vímuefni.
Fyrsta stefna stjórnvalda á Íslandi í skaðaminnkun með tillögum að aðgerðaáætlun var birt í nóvember 2024. Formaður Matthildarsamtakanna sat í kjarnahópi starfshópsins í stefnumótunarvinnunni.