Matthildarteymið

Matthildarteymið veitir lágþröskulda skaðaminnkandi þjónustu og sálrænan stuðning í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi.

Áhersla er lögð á að skapa öruggt rými fyrir fólk þar sem það getur átt heiðarleg samtöl um vímuefnanotkun sína og andlega vanlíðan.

Þjónustan er veitt til fólks á fyrri stigum vímuefnanotkunar og andlegrar vanlíðunar og snýr að lýðheilsu og snemmtækum inngripum.

Hvaða þjónusta er veitt:

Matthildarteymið veitir fræðslu og leiðbeiningar um öruggari vímuefnanotkun, skaðaminnkandi búnað og aðgang að vímuefnaprófum. Einnig dreifir verkefnið naloxone nefúða og veitir fræðslu um áhættur ópíóíðanotkunar.

Matthildarteymið veitir einnig fólki sem glímir við andlega vanlíðan og geðrænar áskoranir, líkt og sjálfsvígshugsanir, kvíða og afleiðingar ofbeldis, aðgang að sálrænum stuðningi og aðstoð við að taka skref í viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu. Teymið veitir fræðslu um úrræði sem standa til boða og vísar í þjónustur.

Þjónustuinngrip:

  1. Heilbrigðisaðstoð:
    Minniháttar slys og skyndihjálp.

  2. Yfirseta og stuðningur:
    Þegar aðilar hafa innbyrt of mikið af áfengi/vímuefnum eða líður illa andlega.

  3. Skaðaminnkandi ráðgjöf og fræðsla

  4. Skaðaminnkandi búnaður:
    Smokkar, eyrnatappar og skaðaminnkandi búnaður fyrir vímuefnanotkun.

  5. Einföld vímuefnapróf:
    Vímuefnapróf draga úr líkum á ofskömmtun, óafturkræfum skaða og dauðsföllum.

  6. Sálrænn stuðningur og spjall.

  7. Naloxone dreifing + fræðsla:

  8. Fræðsla og vísanir í heilbrigðis- og félagsleg úrræði:

Hvernig þjónustan fer fram:

Matthildarteymið setur þjónustuna upp í ákveðnu rými á viðburðum og hátíðum, sem viðburðahaldarar hafa úthlutað teyminu. Einnig veitir Matthildarteymið færanlega þjónustu um svæðið meðan viðburður stendur yfir.

Samstarfssamningur er gerður við viðburðahaldara sem óska eftir þjónustu teymisins.

Um verkefnið
Verkefnið var sett á laggirnar í maí 2024 og eru tíu sjálfboðaliðar í teyminu, sem hafa lokið námskeiði og sérþjálfun til að starfa í verkefninu.

Sumarið 2024 veitti Matthildarteymið þjónustu á fimm hátíðum. Um 200 manns leituðu í þjónustuna og voru 315 þjónustuinngrip veitt.

Samtökin fengu styrk frá Styrktarsjóði geðheilbrigðis og Lýðheilsusjóði til að setja teymið á laggirnar.

Fyrirspurnir og óskir um þjónustu Matthildarteymisins er sent á
svala@matthildurskadaminnkun.is