Tengiliður Íslands hjá C-EHRN

Matthildarsamtökin eru í samstarfi við Evrópsku skaðaminnkunarsamtökin, Correlation European Harm Reduction Network (C-EHRN). Fyrir hönd Matthildarsamtakanna er Svala Jóhannesdóttir Focal Point (tengiliður) Íslands hjá C-EHRN og er það í fyrsta sinn sem aðili frá Íslandi gegnir því hlutverki.

C-EHRN var stofnað árið 2004 og eru yfirsamtök evrópskra félagasamtaka sem búa yfir sérfræðiþekkingu á sviði skaðaminnkunar og vímuefnatengdra mála. C-EHRN eru hluti af sérfræðihópum innan evrópskra stofnana, líkt og EUDA, ECDC, Pompidou hópnum (Evrópuráðinu) og WHO í Evrópu. C-EHRN sinnir jafnframt fjölmörgum verkefnum, sem sjá má hér.

Um 158 félagasamtök í Evrópu tilheyra C-EHRN og eru 45 Focal Points (tengiliðir) sem koma frá flestum aðildarríkjum ESB og öðrum Evrópulöndum. Focal Point eru landsbundnir meðlimir C-EHRN og er ábyrgðarsvið þeirra söfnun gagna og upplýsinga um stöðu skaðaminnkandi þjónustu og vímuefnanotkunar í hverju landi/borg fyrir sig. Ásamt því leggja tengiliðir sitt af mörkum við að styðja við starfsemi C-EHRN, með sérfræðiþekkingu sinni og starfsreynslu. Tengiliðir eru valdir af C-EHRN skrifstofunni á grundvelli ákveðinna viðmiða, líkt og yfirgripsmikillar sérfræðiþekkingar á sviði skaðaminnkunar og viðeigandi reynslu í innlendu og alþjóðlegu samstarfi.

Árlega gefur C-EHRN út skýrslu um stöðu skaðaminnkunar í Evrópu. Skýrslan miðlar og endurspeglar áreiðanlegar upplýsingar, frá félagasamtökum, um skaðaminnkandi þjónustu í Evrópu og leggur áherslu á fjögur forgangsatriði: lifrarbólgu C, forvarnir gegn ofskömmtun, nýja strauma í vímuefnanotkun (e. new drug trends) og þátttöku félagasamtaka. Skýrsla C-EHRN er hugsuð sem viðbót við núverandi gagnaöflum, líkt og ársskýrslu vímuefnamiðstöðvar Evrópu (EUDA) og skýrslu Alþjóðlegu skaðaminnkunarsamtakanna sem gefin er út á tveggja ára fresti.