5. Þvingunarráðstafanir lögreglu

Almennt:

Lögreglan má aðeins beita einstaklinga þvingunum ef skýr heimild er fyrir því í lögum og ef öll lagaleg skilyrði eru til staðar í hvert eitt sinn. 

Þvingunarráðstafanir lögreglu er að finna í IX-XIV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þær eru m.a. leit, líkamsleit, handtaka, líkamsrannsókn, hlerun, haldlagning, húsleit, gæsluvarðhald, kyrrsetning og geðrannsókn.

Lögregla má aðeins beita þvingunarúrræðum í undantekningartilvikum, þegar önnur og vægari úrræði standa ekki til boða. Þannig ætti hún t.d. fyrsta að skoða það hvort hún geti beitt farbanni áður en hún setur manneskju í gæsluvarðhald. 

Við beitingu þvingunarúrræða ber lögreglunni að gæta ítrustu varkárni. Hún skal framkvæma þau af virðingu og þau mega ekki standa lengur en nauðsyn krefur.


Einkenni:

Það sem helst einkennir þvinganir lögreglu er að þær eru knúnar fram með valdi, þeim er beitt í miklu valdaójafnvægi og þær fela í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks.

Sem dæmi teljast handtaka, gæsluvarðhald, líkamsleit og líkamsrannsókn almennt skerðing á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs. Þá telst handtaka og gæsluvarðhald einnig skerðing á ferðafrelsi og líkamsleit og líkamsrannsókn skerðing á rétti manna til yfirráða á eigin líkama. Húsleit, rannsókn á eigum og símhlerun teljast almennt til skerðinga á friðhelgi einkalífsins og haldlagning á munum skerðing á eignar- og ráðstöfunarrétti. Svo fátt eitt sé nefnt. Þá eiga flestar þvingunarráðstafanir það sameiginlegt að vera ærumeiðandi. 

Afleiðingar:

Segja má að þvingunarúrræðin séu í eðli sínu ofbeldi, enda almennt refsiverð þegar þau eru framkvæmd af öðrum en yfirvöldum. Sem dæmi telst það til nauðgunar sé fingur settur í endaþarm einstaklings án hans vilja, en lögreglan kann að telja það nauðsynlegt í þágu rannsóknar. Það sama á við um t.d. frelsissviptingu, símhlustanir, eignaupptöku o.fl. Þá er þvingunarúrræðum beitt í afar miklu valdaójafnvægi og oft gegn einstaklingi í viðkvæmri stöðu. 

Þannig geta þvingunarúrræði lögreglu haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem þær beinast að, bæði líkamlegar og sálrænar. 

Bótaréttur

Af þeim sökum var það sett í lög að ríkið beri almennt ábyrgð á því tjóni sem fólk verður fyrir vegna þvingunaraðgerða lögreglunnar, séu ákveðin skilyrði til staðar. Sjá nánar hér.

a. Má lögreglan leita á mér/í eigum mínum?

Líkamsleit
Stutt útgáfa

Með líkamsleit er átt við það þegar lögreglan leitar á einstaklingi í þeim tilgangi að leggja hald á eitthvað sem hún heldur að hann gæti verið með á sér. Til dæmis ef lögreglan leitar á manneskju innanklæða eða í farangri hennar vegna gruns um að hún sé með stolinn varning/vímuefni. 

Það telst einnig líkamsleit þegar lögreglan leitar að hlutum/efni sem hún telur að einstaklingurinn hafi falið innvortis, t.d. með því að hafa gleypt þá/það. 

Lögreglan verður alltaf að fá leyfi frá dómara fyrir leitinni (dómsúrskurð), nema sá sem hún vill leita á gefi ótvírætt samþykki sitt fyrir leitinni. Í öllum tilvikum verða lagaleg skilyrði leitar að vera til staðar.  Annars er lögreglu óheimilt að framkvæma leitina. 

Í undantekningartilvikum má lögreglan þó leita án samþykkis ef mikil hætta er á því að hluturinn/efnið eyðileggist á meðan beðið er eftir samþykki dómara. 

Heimild til líkamsleitar er finna í 76. og 78. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Réttur til bóta vegna líkamsleitar: 

Líkamsleit felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. persónurétti, rétti til að ráða yfir eigin líkama o.fl. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að öll þau sem lögreglan leitar á eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

Hver getur veitt leyfi fyrir líkamsleit? 

Aðeins tveir geta gefið lögreglu leyfi fyrir líkamsleit. Það eru: 

1. Dómari í formi dómsúrskurðar. 

Meginreglan er sú að lögreglan verði að fá leyfi frá dómara áður en hún framkvæmir leit. 

  • Áður en dómari gefur leyfi fyrir leitinni þá kannar hann hvort öll lagaleg skilyrði séu fyrir hendi, sjá hér að neðan. Ef þau eru öll til staðar leyfir hann leitina, annars ekki. 

2.  Manneskjan sem lögreglan vill leita á. 

Almennt verður lögreglan að fá leyfi dómara, nema manneskjan sjálf gefi leyfi sitt fyrir leitinni. 

  • Samþykkið verður ótvírætt.

    • Það verður að vera skýrt hvers konar leit manneskjan er að samþykkja.

      • Til dæmis: Nær samþykkið aðeins til þess að leita í bakpoka eða nær það einnig til leitar í vösum/innanklæða? Þetta verður að vera skýrt. 

    • Lögreglan má ekki taka þögn sem samþykki eða leita á manneskju sem er ófær um að gefa samþykki sitt.

  • Samþykkið verður að vera gefið með fúsum og frjálsum vilja. 

    • Lögreglan má ekki þvinga fram samþykkið, t.d. með hótunum.

  • Manneskjan má alltaf afturkalla samþykki sitt, líka þegar leit er hafin, og lögreglunni er þá skylt að stöðva leitina. 

  • Athugið að lagaleg skilyrði fyrir leit verða að vera til staðar, þó að manneskjan gefi ótvírætt samþykki fyrir henni. Þannig getur lögreglan ekki farið um og leitað á fólki bara til að kanna hvort það sé með eitthvað. 

Ath. í undantekningartilvikum má lögreglan framkvæma leit án þess að fá leyfi dómara eða manneskjunnar sem hún vill leita á. Ef það er mikil hætta á því að biðin eftir leyfi dómara (dómsúrskurði) valdi því að það sem leitað er að spillist/eyðileggist (brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum). 

Skilyrði líkamsleitar:

Til þess að dómari gefi leyfi  fyrir líkamsleit og að lögreglan megi framkvæma hana þá verða eftirfarandi skilyrði að vera til staðar:

A. Skilyrðin ef lögreglan vill leita á sakborningi (einstaklingi sem hún sakar um að hafa framið lögbrot):

  • Það þarf að vera nauðsynlegt að taka af honum hlutinn sem hann er talinn vera með á sér.

  • Það þarf að vera rökstuddur grunur til staðar um að hann hafi framið brotið sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum eða 2ja ára fangelsi samkvæmt öðrum lögum. 

    • Þannig má ekki framkvæma leit/gefa leyfi fyrir henni ef um er að ræða rannsókn á smávægilegum brotum sem aðeins geta varðað sektum.

Dæmi: Lögreglan stendur mann að verki við innbrot og telur rökstuddan grun um að hann sé með þýfi innanklæða. Hún fær ekki leyfi hjá manninum og óskar því eftir leyfi dómara. Hann fer yfir stöðuna, telur lagaleg skilyrði fyrir hendi og heimilar leitina. 

B. Skilyrðin ef lögreglan vill leita á öðrum en sakborningi (einstaklingi sem ekki er sakaður um að hafa framið lögbrot):

  • Það þarf að vera rökstuddur grunur fyrir því að hann sé raunverulega með hlutinn.

  • Það þarf að vera nauðsynlegt að taka af honum hlutinn sem hann er talinn vera með á sér.

  • Brotið sem verið er að rannsaka þarf að varða fangelsisvist samkvæmt almennum hegningarlögum eða 2ja ára fangelsi samkvæmt öðrum lögum.

    • Það þýðir að ekki má framkvæma leit um er að ræða rannsókn á smávægilegum brotum sem aðeins geta varðað sektum. 

Dæmi: Undir þetta falla t.d. einstaklingar sem eru stöðvaðir af lögreglu á tónlistarhátíðum. 

 

Innvortis líkamsleit

Ef lögreglan telur að einstaklingur sé að fela hluti/efni inni í líkamanum sínum þá má lögreglan framkvæma leit ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

  • Hann er talinn vera með hlutinn/efnið inni í sér.

  • Rökstuddur grunur er til staðar um að hann hafi framið brot sem getur varðað 6 ára fangelsi.

    • Hér þarf s.s. að vera um alvarlegt brot að ræða. 

  • Læknir verður að hafa staðfest að það sé óhætt að framkvæma leitina, með tilliti til heilsu einstaklingsins.

Dæmi: Hérna undir falla t.d. tilvik þar sem rökstuddur grunur er talinn á því að einstaklingur sé með mikið magn fíkniefna inni í sér.

Þeir einu sem geta samþykkt líkamsleit innvortis eru:

  1. Dómari í formi dómsúrskurðar, ef öll skilyrði fyrir leitinni eru til staðar. 

  2. Manneskjan sem leitað skal innvortis á.

    a. Skilyrði leitar verða að vera til staðar, þó að manneskjan samþykki. 

Lögreglan getur ekki réttlætt innvortis leit með vísan til þess að annars sé brýn hætta á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. 

 

Framkvæmd líkamsleitar

Það er skilyrði samkvæmt lögum að líkamsleit sé gerð af lögreglumanni sem er sama kyns og sá sem leitað er á. Sé einstaklingur með hlutlausa kynskráningu getur hán valið af hvaða kyni hán óskar að lögreglumaðurinn sé sem leita mun á háni. 

Það er skilyrði við leitina að lögreglumenn gæti varfærni og hlífðar, enda oft um afar viðkvæmar aðgerðir að ræða. (79. gr. sml.) 

Ef um innvortis leit er að ræða þá skal hún framkvæmd af lækni eða öðrum sem hefur til þess tilskylda menntun. 

b. Má gera húsleit hjá mér/leita í bílnum mínum/
öðrum stöðum?

Húsleit

Með húsleit er átt við það, þegar lögreglan leitar að manneskjum eða hlutum, inni í húsum,  hirslum eða öðrum geymslustöðum eða í skipum, bifreiðum, flugvélum eða  öðrum farartækjum. 

Lögreglan verður að fá leyfi frá dómara fyrir húsleitinni (dómsúrskurð), nema sá sem á/hefur umráð yfir húsinu gefi ótvírætt samþykki sitt fyrir leitinni. Í öllum tilvikum verða lagaleg skilyrði leitar að vera til staðar. Án þess er lögreglu óheimilt að framkvæma leitina. 

Í undantekningartilvikum má lögreglan framkvæma húsleit án samþykkis eiganda og dómara, ef hætta er á að biðin skemmi rannsóknina (valdi sakarspjöllum) eða að manneskjan sem lögreglan leitar að sleppi í burtu á meðan. 

Lögreglan má hins vegar leita á víðavangi og í húsum sem eru öllum opin, án samþykkis. Til dæmis á almenningssalernum eða úti í móa. 

Heimild til líkamsleitar er finna í 76. og 78. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Réttur til bóta vegna húsleitar: 

Húsleit felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. friðhelgi einkalífs. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að öll sem lögreglan leitar á eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

Hver getur veitt leyfi fyrir húsleit? 

Aðeins tveir geta gefið lögreglu leyfi fyrir húsleit:

1. Dómari í formi dómsúrskurðar. 

  • Meginreglan er sú að lögreglan verði að fá leyfi frá dómara áður en hún framkvæmir húsleit. 

    • Áður en dómari gefur leyfi fyrir leitinni þá kannar hann hvort öll lagaleg skilyrði séu fyrir hendi, sjá hér að neðan. Ef þau eru öll til staðar leyfir hann leitina, annars ekki. 

2. Eigandi eða umráðamaður þess staðar sem leita á í. 

  • Almennt verður lögreglan að fá leyfi dómara, nema manneskjan sjálf gefi samþykki sitt fyrir húsleitinni. 

    • Samþykkið verður ótvírætt.

      • Það verður að vera skýrt hvers konar húsleit manneskjan er að samþykkja.

    • Samþykkið verður að vera gefið með fúsum og frjálsum vilja. 

      • Lögreglan má ekki þvinga fram samþykkið, t.d. með hótunum.

      • Lögreglan má ekki taka þögn sem samþykki.

    • Lögreglan verður að vera örugg á því að sá sem gefur samþykki fyrir húsleitinni hafi til þess heimild. 

    • Manneskjan má alltaf afturkalla samþykki sitt.

      • Líka þegar húsleit er hafin, og lögreglunni er þá skylt að stöðva leitina. 

  • Athugið að lagaleg skilyrði fyrir húsleit verða að vera til staðar, þó að manneskjan gefi ótvírætt samþykki fyrir henni.

Í undantekningartilvikum má framkvæma húsleit án samþykkis eiganda/umráðamanns og dómara, ef: 

  • Brýn hætta er á að biðin eftir leyfi dómara (dómsúrskurði) muni valda sakarspjöllum/rannsóknin spillist. 

  • Ef verið er að elta mann sem á að handtaka og hætta er á að hann sleppi í burtu ef beðið er eftir úrskurði dómara. 

Sjá 75. gr. laga um meðferð sakamála. 

Skilyrði húsleitar:

Til þess að dómari gefi leyfi fyrir líkamsleit og að lögreglan megi framkvæma hana þá verða eftirfarandi skilyrði að vera til staðar, athugið að þau eru mismunandi eftir því hvort húsleit er gerð hjá sakborningi eða öðrum.  

1. EF gera á húsleit hjá sakborningi (þeim sem er sakaður um refsiverðan verknað):

Ætli lögreglan að framkvæma húsleit hjá sakborningi verður tilgangurinn með henni að vera einn af eftirfarandi:

  • Að handtaka einstakling sem er sakaður um refsivert brot

  • Að rannsaka andlag brotsins og önnur ummerki

  • Að finna hluti sem hún ætlar sér að leggja hald á

Ef tilgangurinn er annar en þessi er húsleit ekki heimil.

Þá verða eftirfarandi skilyrði einnig að vera uppfyllt: 

  • Rökstuddur grunur er um að brot hafi verið framið sem varðað getur fangelsisrefsingu og að sakborningur hafi verið þar að verki. 

  • Augljósir rannsóknarhagsmunir séu í húfi

    • Dómari hafnar t.d. beiðni um húsleit ef hún telur leitina ekki hafa neinn rannsóknartilgang

2. Gera á húsleit hjá öðrum en sakborningi (einhverjum sem er ekki grunaður um að hafa framið afbrot):

Ætli lögreglan að framkvæma húsleit hjá öðrum en sakborningi verður eitt af eftirfarandi að vera uppfyllt: 

  • Afbrot hefur verið framið þar inni

  • Sakborningur hefur verið handtekinn þar inni 

  • Rökstuddur grunur er á því að sakborningur sé þar inni 

  • Rökstuddur grunur er á því að þar sé að finna muni sem leggja skal hald á

Þá verða eftirfarandi skilyrði einnig að vera uppfyllt hérna: 

  • Rökstuddur grunur er á því að brot hafi verið framið sem varðar getur fangelsisrefsingu og að sakborningur hafi framið brotið 

  • Augljósir rannsóknarhagsmunir séu í húfi

    • Dómari hafnar t.d. beiðni um húsleit ef hún telur leitina ekki hafa neinn rannsóknartilgang.

Sjá 74. gr. laga um meðferð sakamála. 

Framkvæmd húsleitar:

Lögreglan skal stjórna húsleitinni. 

Ekki skal gera húsleit að nóttu til nema brýnir rannsóknarhagsmunir séu í húfi.

Lögreglunni ber að tilkynna eiganda/umráðamanni um heimild til húsleitar og bjóða honum að vera viðstaddur leitina. Ef hann er ekki heima skal lögreglan kveða til heimilismenn hans eða starfsmenn sem þar eru staddir. 

Ef enginn er viðstaddur húsleit af hálfu eiganda eða umráðamanns skal lögregla tilkynna honum um leitina án ástæðulauss dráttar.

Hverjum þeim sem hindrar eða truflar leitina má víkja brott af leitarstað.

Lögregla verður að gæta varkárni og hlífðar (meðalhóf). 

Sjá 79. gr. laga um meðferð sakamála. 


Leit á víðavangi

Lögreglan má framkvæma leit án dómsúrskurðar á stöðum sem eru opnir almenningi og allir geta gengið frjálsir um, t.d. má hún leita úti í móa, á klósettinu í Smáralindinni o.s.frv. 

c. Má lögreglan gera á mér líkamsrannsókn?

Líkamsrannsókn

Lögreglan verður að fá leyfi frá dómara (dómsúrskurð) fyrir líkamsrannsókn, nema sá sem hún vill framkvæma líkamsrannsóknina á gefi ótvírætt samþykki sitt. Í öllum tilvikum verða lagaleg skilyrði leitar að vera til staðar, annars er lögreglu óheimilt að framkvæma leitina. 

Heimild til líkamsrannsóknar er að finna í 77. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.


Réttur til bóta vegna líkamsleitar: 

Líkamsrannsókn felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. persónufrelsi, friðhelgi einkalífs og rétti til að ráða yfir eigin líkama. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að öll sem lögreglan framkvæmir líkamsrannsókn á eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

Hver getur veitt leyfi fyrir líkamsrannsókn?

Það eru aðeins tveir sem geta gefið lögreglu leyfi fyrir líkamsrannsókn. Án samþykkis annars hvors þeirra er lögreglu með öllu óheimilt að framkvæma hana. Þeir eru: 

1. Dómari í formi dómsúrskurðar. 

  • Meginreglan er sú að lögreglan verði að fá leyfi frá dómara áður en hún framkvæmir líkamsrannsóknina. 

    • Áður en dómari gefur leyfi fyrir rannsókninni þá kannar hann hvort öll lagaleg skilyrði séu fyrir hendi, sjá hér að neðan. Ef þau eru öll til staðar leyfir hann rannsóknina, annars ekki. 

2.  Manneskjan sem lögreglan vill gera líkamsrannsókn á. 

  • Almennt verður lögreglan að fá leyfi dómara, nema manneskjan sjálf gefi leyfi sitt fyrir líkamsrannsókninni. 

    • Samþykkið verður ótvírætt.

      • Það verður að vera skýrt hvers konar rannsókn manneskjan er að samþykkja.

      • Lögreglan má ekki taka þögn sem samþykki eða gera rannsókn á manneskju sem er ófær um að gefa samþykki sitt.

    • Samþykkið verður að vera gefið með fúsum og frjálsum vilja. 

      • Lögreglan má ekki þvinga fram samþykkið, t.d. með hótunum.

  • Athugið að lagaleg skilyrði fyrir líkamsrannsókn verða að vera til staðar, þó að manneskjan gefi ótvírætt samþykki fyrir henni. 

Ólíkt því sem gerist með margar aðrar þvingunarráðstafanir þá má lögreglan ekki framkvæma líkamsrannsókn án samþykkis, þó að hún telji að biðin eftir dómsúrskurði gæti valdið sakarspjöllum. 

Athugið að ofangreint á ekki við um líkamsrannsókn sem er framkvæmd á grundvelli umferðarlaga. Þar gilda aðrar reglur. Sem dæmi má lögreglan framkvæma blóðprufu á manneskju sem er grunuð um ölvun við akstur, án þess að fá leyfi frá henni sjálfri eða dómara. Sjá nánar 2. mgr. 52. gr. umferðarlaga.

Skilyrði líkamsrannsóknar:

Ef lögreglan gerir líkamsrannsókn á sakborningi (þeim sem er grunaður um að hafa framið afbrot): 

  • Líkamsrannsóknin verður að vera honum að meinlausu.

  • Það verður að vera rökstuddur grunur um að hann hafi framið afbrot sem varðað getur fangelsi að lögum. 

Ef lögreglan gerir líkamsrannsókn á öðrum en sakborningi:

  • Afbrotið sem verið er að rannsaka verður að varða a.m.k. tveggja ára fangelsi að lögum. 

  • Það verður að liggja fyrir álit um að það sé óhætt að framkvæma rannsóknina að teknu tilliti til heilsu viðkomandi. 

Dæmi: Það er mjög sjaldgæft að lögregla geri líkamsrannsókn á öðrum en sakborningi, hér kæmi t.d. til greina að lögreglan framkvæmdi blóðsýni á öllum sem voru á vettvangi til samanburðar. 

Framkvæmd líkamsrannsóknar:

Líkamsrannsókn skal framkvæmd af lækni eða öðrum sem hefur til þess tilskilda menntun. 

Athugið að læknum eða öðrum sem kallaðir eru til er skylt að aðstoða lögregluna í þágu rannsóknar (1. mgr. 55. gr. sakamálalaga) 

Við líkamsrannsókn skal gæta þeirrar varfærni og hlífðar sem samræmist markmiði hennar.

d. Má lögreglan taka eigur mínar af mér?

Þegar lögreglan tekur eigur og muni einstaklings og færir í eigin vörslu er það kallað haldlagning. Það getur verið lausafé, líkt og t.d. sími, tölvur, peningar, dýr, bifreið, gögn, inneign í banka o.fl.

Skilyrði 

Lögreglan má leggja hald á muni ef ætla má að:

  • Þeir hafi sönnunargildi í sakamáli

    • Það getur verið innihald í síma svo sem ljósmyndir eða texti sem hefur sönnunargildi, vopn sem lögreglan hefur fundið o.fl.

  • þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt

    • Hér er t.d. um að ræða þýfi

  • þeir kunni að verða gerðir upptækir

    • Gera má upptækan ávinning af broti sem t.d. eru munir sem keyptir eru fyrir ávinning eða hafa komið í stað hans

Lögreglan þarf almennt ekki dómsúrskurð fyrir haldlagningunni, sem þýðir að hún tekur ákvörðun um haldlagningu sjálf. Lögreglan þarf hins vegar dómsúrskurð ef hún þarf að framkvæma húsleit til þess að leggja hald á muninn.  

Lögreglan á að benda þér á að þú megir bera haldlagninguna undir dómara.

Athugið að ekki má leggja hald á muni sem innihalda upplýsingar um trúnaðarsamskipti eigandans við lögmann sinn. 

Framkvæmd: 

Ef haldlagningin á að koma í veg fyrir að sönnunargögn eyðileggist skal fyrst bjóða eiganda að veita aðgang að hlutnum og/eða gefa afrit af gögnunum áður en hluturinn er tekinn til vörslu. Sem dæmi má nefna að lögreglan taki afrit af símtæki í stað þess að leggja hald á símann sjálfan. 

Lögregla skal halda skrá um haldlagða muni og tilkynna eigandanum skriflega um það þegar hlutur er haldlagður. Við haldlagningu muna skal gera skýrslu þar sem eftirfarandi atriði skulu a.m.k. tilgreind eftir því sem við á:

  1. Heiti og númer máls.

  2. Nafn eiganda eða vörsluhafa muna.

  3. Hvar og hvenær munirnir voru haldlagðir.

  4. Hver sá um haldlagninguna, bæði heiti stjórnvalds og nafn þess starfsmanns sem ber ábyrgð á aðgerðinni.

  5. Lýsing á þeim munum sem voru haldlagðir, s.s. tegund, fjöldi, þyngd og litur. Eftir atvikum kann að vera rétt að ljósmyndir af mununum fylgi með skýrslunni.

  6. Mat á ástandi muna ef við á.

Haldlagningarskýrslan skal undirrituð af lögreglunni og eiganda, ef það er möguleiki og rannsóknarhagsmunir standa því ekki í vegi.

Lögreglu ber að tilkynna þér að þú hafir rétt á að fá afrit af munaskránni. 

Geymsla munanna

Lögreglan er ábyrg fyrir geymslu munanna og þeir skulu geymdir hjá henni. 

Lögreglan skal hafa a.m.k. eitt læst og öruggt rými sem sérstaklega er ætlað haldlögðum hlutum. Aðgangur að rýminu skal takmarkaður og ber yfirmaður málaflokksins ábyrgð á því að halda skrá yfir alla þá sem hafa aðgang að rýminu. 

Lögreglan á að gefa út sérstaka kvittun fyrir hverjum hlut sem hún setur í geymsluna og sjá til þess að hluturinn sé skráður í munaskrá. Aðeins má afhenda hlutina úr geymslunni gegn því að sá sem tekur við þeim kvitti upp á það. Þannig á alltaf að vera til kvittun um það hver fékk hvern mun úr geymslu. 

Hvað má hún halda mununum lengi? 

Þegar ekki er þörf á haldlagningu lengur ber lögreglu að láta þig vita. 

Lögreglan skal aflétta haldi yfir mununum þegar það er ekki lengur þörf á að hún geymi þá og í síðasta lagi þegar málinu sjálfu líkur. 

Lögreglan á að sjá um að koma hlutnum á þann sem á hann. 

Þú átt ekki rétt á að fá hlutinn til baka ef:

  • Munirnir hafa verið gerðir upptækir með dómi, t.d. ef sannað er að þeir hafa verið keyptir fyrir ávinning af afbroti

  • Munanna var aflað með refsiverðum hætti og þeir hafa verið afhendir réttum eiganda, t.d. hlutum sem stolið er úr verslun og þeim skilað til eiganda verslunarinnar, sem hefur sýnt fram á að hann eigi þá. 

  • Munirnir hafa verið afhendir til þeirra sem eiga tilkall til þeirra

  • Munir hafa verið lagðir fram sem sönnunargögn, ath. þetta á þó ekki við ef þú þarft á muninum að halda til að ná rétti þínum eða afstýra réttindamissi

Ef lögreglan leggur hald á ólögleg vímuefni er þeim fargað. 

Hlutirnir eru ekki sóttir: 

Hafni eigandi eða vörsluhafi að taka við munum þá skal þeim komið fyrir í geymslu hjá geymslumanni og eiganda tilkynnt hvar þeir eru geymdir. Ef eigandinn er ekki búinn að ná í þá ári eftir að honum var sannarlega tilkynnt hvar þeir væru í geymslu, þá skal lögreglan selja þá. Söluhagnaðurinn skal fyrst notaður til þess að borga geymslukostnað og síðan skal restin afhent eigandanum. 

Í reglugerð um framkvæmd haldlagningar og önnur skilyrði er ítarlega farið yfir geymslu, sölu, afhendingu, skráningu og fleira, sjá hér.

Réttur til bóta vegna haldlagningar lögreglu: 

Haldlagning felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. eigna- og ráðstöfunarrétti. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að allir sem verða fyrir haldlagningu lögreglu eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

e. Má lögreglan hlera símann minn/fylgjast með honum?

Í 11. kafla laga um meðferð sakamála er fjallað um símahlustun og önnur sambærileg úrræði lögreglu. Um er að ræða þvingunarúrræði lögreglu sem fela það í sér að: 

  • Lögregla afli upplýsinga hjá fjarskiptafyrirtækjum um tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki. 

  • Lögregla hlusti á eða taki upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki eða öll slík tæki í eigum og umræðum ákveðins manns. 

  • Lögregla fylgist með eða taki upp fjarskipti með ákveðnum búnaði. 

  • Lögregla taki upp samtöl með sérstöku hljóðupptökutæki án vitundar þeirra sem taka á upp. 

  • Lögreglan taki myndir af fólki, ljósmyndir eða kvikmyndir, án þess að það viti af því. 

  • Lögregla komi fyrir staðsetningarbúnaði í bifreið eða öðru farartæki, í varningi eða á einstakling til þess að veita honum eftirför. 

  • Taka upp hljóð eða myndir af fólki á almannafæri og fylgjast með því í þágu rannsóknar.

Skilyrði: 

Ströng skilyrði eru fyrir beitingu þessara úrræða og fyrir þeim þarf leyfi frá dómara (dómsúrskurður). Það er því ekki nóg að umráðamaður eða eiginlegur notandi síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatækis samþykki upptöku eða hlerun. 

Til þess að dómarinn gefi leyfi þarf eftirfarandi að vera til staðar í málinu: 

  • upplýsingar sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls fáist með þessum hætti 

    • Hér hafa dómstólar gert þá kröfu að rökstuddur grunur sé að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot. 

  • Að rannsókn beinist að broti sem varðað getur 6 ára fangelsi (undantekning er 109. gr., 175. gr. a., 199. gr. a., 206. gr., 210. gr. a og b, 226. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr., og 264. gr. almennra hegningarlaga).

  • Ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess

Þegar lögreglan óskar eftir upplýsingum um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma (e. call log) þurfa þessi skilyrði að vera til staðar en það er nóg að fá samþykki umráðamanns eða eiginlegs notanda, það þarf sem sagt ekki úrskurð dómara. Hér falla undir tilvik þegar lögreglan óskar upplýsinga um það hvort tiltekið númer hafi hringt eða móttekið skilaboð frá öðru númeri, en ekki hlustun símtala eða efni skilaboðanna. 

Athugið að lögreglan þarf ekki úrskurð til þess að taka upp hljóð eða mynd af fólki í þágu rannsóknar ef það er á almannafæri eða á stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Þannig getur lögreglan komið fyrir t.d. myndatökubúnaði á fjölförnum stöðum utanhúss án dómsúrskurðar.

Lögreglan fylgir ekki lögum:

Ríkissaksóknari hefur núna í mörg ár gefið út skýrslur þar sem fram kemur að lögreglan virðist þráast við að fylgja lögum og reglum þegar kemur að símahlustunum. Segir m.a. í síðustu skýrslu, frá árinu 2021:

“Með vísan til framangreinds hefur ríkissaksóknari komist að þeirri niðurstöðu að verulega skortir á að lögreglustjórar og héraðssaksóknari fylgi lögum og fyrirmælum ríkissaksóknara um tilkynningar til sakborninga, eyðingu hlustunargagna og að halda skrá um þá sem hafa haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið með aðgerð skv. 80. – 82. gr. sml.

Ríkissaksóknari ætlast að sjálfsögðu til þess að lögreglustjórar og héraðssaksóknari fari eftir hans leiðbeiningum og fyrirmælum almennt og í hverju máli fyrir sig líkt og lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir.

Eins og málið horfir við núna, tæpum sex árum eftir gildistöku laga nr. 103/2016, má efast um gildi eftirlits ríkissaksóknara með símahlustunum lögreglu og skyldum úrræðum.

Réttur til bóta vegna símahlustunar og annarra álíka þvingunarúrræða lögreglu: 

Símahlustun og aðrar álíka aðgerðir fela almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. friðhelgi einkalífs. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að allir sem verða fyrir slíkum þvingunarráðstöfunum lögreglu eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

Símahlustun og upplýsingar um símanotkun: 

Skilyrði: 

  • Verður að vera ástæða til að ætla að mikilvægar upplýsingar fáist með þessu, sem skipta miklu fyrir rannsókn málsins

  • Að brotið geti varðað 6 ára fangelsi og ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess

Að rannsóknin beinist að broti á 109. gr., 175. gr. a, [199. gr. a], 1) 206. gr., 210. gr. a, 210. gr. b, 226. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

f. Má lögreglan hefta ferðafrelsi mitt?

Þegar öll skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi eru uppfyllt getur dómari í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald mælt fyrir um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun. Oftast vegna þess að andleg og líkamleg heilsa sakbornings er þannig að gæsluvarðhald gengur ekki upp. Hér er um að ræða stofnanir eins og réttargeðdeild fyrir fullorðna og Stuðla fyrir ungmenni. 

Dómari getur einnig bannað sakborningi að fara af landi brott (farbann) eða ákveðið að sakborningur skuli halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis. Lögreglan getur svo ákveðið nánar að hann skuli leggja inn vegabréfið sitt eða að hann gefi sig fram við lögregluna á ákveðnum tímum.  

Þá getur dómari tekið ákvörðun um að sakborningur verði með búnað svo hægt sé að fylgjast með ferðum hans (ökklaband líklegast). 

Í undantekningartilvikum ákveður dómari að sakborningur geti haldið frelsi sínu gegn því að hann setji tryggingu. Það er hins vegar úrræði sem afar sjaldan er gripið til. 

Ráðstöfun sem þessari skal ekki markaður lengri tími en nauðsyn krefst og lögreglunni ber að aflétta henni jafn skjótt og hennar er ekki lengur þörf. Ráðstöfun lýkur í síðasta lagi þegar héraðsdómur er kveðinn upp í málinu.  

Réttur til bóta vegna farbanns og annars ferðafrelsis: 

Farbann og aðrar slíkar ráðstafanir fela almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að allir sem verða fyrir slíkum þvingunarráðstöfunum lögreglu eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér

g. Má lögreglan kyrrsetja eigur mínar?

Lögreglan getur farið fram á að eignir sakbornings séu kyrrsettar í þeim tilgangi að tryggja greiðslu sektar/sakarkostnaðar eða til að leggja hald á ávinning sem aflað hefur verið með broti (upptaka ávinnings). Skilyrði er að hún telji hættu á að eignunum verði annars skotið undan, þær geti glatast eða að þær kunni að rýrna.

Kyrrsetningin fellur niður ef rannsókn málsins er hætt, sakborningur hefur verið sýknaður af greiðslu sektar/sakarkostnaðar eða ef ekki hefur verið dæmt um upptöku ávinnings.  

Sjá 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Munurinn á kyrrsetningu og haldlagningu er sá að með haldlagningu þá tekur lögreglan muninn/verðmætin af sakborningi en með kyrrsetningu þá eru þau áfram í höndum sakbornings. 

 

Réttur til bóta vegna kyrrsetningar lögreglu:  

Kyrrsetning felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. eignarrétti. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að þau sem hafa orðið fyrir kyrrsetningu lögreglu eiga rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

h. Skoðun sérfræðings

Lögreglan getur leitað til sérfróðra aðila ef þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til þess að upplýsa málið, t.d. læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, rithandar- eða bókhaldsrannsókn.

Lögreglan getur einnig óskað eftir réttarlæknisfræðilegri líkskoðun teljist hún nauðsynleg í þágu rannsóknar. Lögreglan skal fá leyfi dómara (dómsúrskurð) um krufningu, nema nánasti venslamaður hins látna samþykki að hún fari fram.

Sjá nánar 87. gr. laga um meðferð sakamála  nr. 88/2008. 

Réttur til bóta vegna skoðunar sérfræðings:

Sjá nánar hér.

i. Geðrannsókn

Ef  vafi er á því hvort andlegt ástand sé þannig að sakborningur teljist sakhæfur eða að refsing muni bera árangur, þá má láta hann sæta sérstakri geðrannsókn.

Þetta þvingunarúrræði er ólíkt hinum þar sem það miðar yfirleitt ekki að því að upplýsa um atvik heldur er það framkvæmt til þess að ákveða hvort sakborningur skuli sæta fangelsisvist. 

Hver veitir leyfi?

Lögreglan verður að fá leyfi dómara fyrir geðrannsókninni (dómsúrskurð) nema sakborningur sjálfur gefi samþykki sitt. Það er skilyrði að samþykkið sé ótvírætt og veitt af fúsum og frjálsum vilja. 

Algengast er að úrskurður um geðrannsókn tengist gæsluvarðhaldsúrskurði en það er þó ekki algilt. Dómari þarf ekki að taka fram í úrskurði um geðrannsókn hvar rannsókn skuli fara fram en ef geðlæknir metur það æskilegt að sakborningur skuli vistaður á sjúkrahúsi á meðan geðrannsókn fer fram þá er nauðsynlegt að dómari geti þess í úrskurði. Þá þurfa öll skilyrði gæsluvarðhalds að vera fyrir hendi. 

Skilyrði: 

Skilyrði fyrir geðrannsókn er að það sé rökstuddur grunur til staðar um að sakborningur hafi framið brot sem varða getur fangelsisrefsingu að lögum. 


Sjá nánar 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð sakamála.

Réttur til bóta vegna geðrannsóknar:

Geðrannsókn felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. friðhelgi einkalífs. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að allir sem lögreglan lætur sæta geðrannsókn eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  Sjá nánar hér.

j. Handtaka

Með handtöku er átt við það þegar lögreglan frelsissviptir einstakling í tiltölulega skamman tíma í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls eða til þess að halda uppi lögum og reglu.

Handtaka er frelsissvipting hvort sem hún er knúin fram með valdi eða með því að meina þér að fara, t.d. út úr lögreglubíl. Sértu í þessum aðstæðum þá telstu handtekinn, burtséð frá því hvað lögreglan segir. 

Það er skylda lögreglunnar að upplýsa þig strax um ástæðu handtökunnar, hún má ekki halda þér lengur en nauðsynlegt er. Lögreglan má ekki halda þér lengur en í 24 klst. nema hún leiði þig fyrir dómara. Hún má þó halda þér í 30 klst. vegna veðurs, ef það er ófært eða ef þú ert undir áhrifum vímuefna og þarft að sofa eða jafna þig fyrst. Ef hún ætlar að halda þér lengur verður hún að fara fram á gæsluvarðahald.

Hvenær má lögreglan handtaka fólk? 

Lögreglan hefur heimild til þess að handtaka þig í nokkrum mismunandi tilvikum og er gerður greinarmunur á því hvort grunur sé á því að þú hafir framið afbrot eða ekki. 

A. Handtaka þegar mál telst sakamál – byggt á sakamálalögum 

Ef lögreglan er að rannsaka ákveðið brot hefur hún heimild til þess að handtaka þig ef:

1. Það er rökstuddur grunur á því að þú hafir framið brotið sem sætt getur ákæru

Rökstuddur grunur þýðir að grunsemdir einar og sér eru ekki nægilegar. Lögreglan þarf t.d. að hafa verið vitni að atburði eða fengið frásögn frá vitnum. Grunsamleg hegðun eins og flótti undan lögreglu getur ýtt undir rökstuddan grun. Það er ekki nægjanlegt að þú hafir framið samskonar brot áður.

Flest afbrot falla hér undir fyrir utan einkarefsimál, t.d. ærumeiðingar. Ærumeiðingar gagnvart opinberum starfsmönnum geta þó sætt ákæru.

2. Lögreglan telur það nauðsynlegt til þess að:

a. Koma í veg fyrir áframhaldandi brot 

b. Tryggja návist þína

c. Tryggja öryggi þitt eða annarra

d. Til þess að koma í veg fyrir spillingu sönnunargagna

Lögreglunni er einnig heimilt að handtaka við uppþot og fjölmennar óeirðir, ef bæði neðangreint er fyrir hendi:

  • Líkur eru á því að óeirðirnar geti haft í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignarspjöll

  • Ekki er með vissu hægt að benda á þá sem eru sekir um óeirðirnar

Þá má lögreglan handtaka alla þá sem eru nærstaddir og ástæða er til að gruna þá um refsiverðan verknað. 

Að lokum þá getur lögreglan handtekið þig ef þú: 

a. Neitar að segja til nafns eða deila á þér að öðru leyti enda sé það nauðsynlegt í þágu rannsóknar. 

b. Hefur verið kvaddur til að gefa skýrslu hjá lögreglu sem sakborningur en hefur ekki sinnt kvaðningunni

c. Hefur ekki sinnt fyrirkalli eða mætt og gefið skýrslu í sakamáli og hefur ekki lögmæt forföll

d. Hefur í leyfisleysi horfið úr gæsluvarðhaldi 

B. Handtaka þegar mál teljast ekki sakamál – byggð á lögreglulögum  

Þegar mál telst ekki sakamál (lögreglan er ekki að rannsaka ákveðið brot) hefur lögreglan heimild til þess að handtaka þig í eftirfarandi tilvikum: 

a. Í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef þú ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum

b. Ef þú hefur ekki landvistarleyfi

c. Ef þú átt að afplána refsingu 

d. Ef þú hefur leyfislaust vikið úr fangelsi 

e. Ef rökstuddur grunur leikur á að þú hafir rofið í verulegum atriðum skilyrði sem þér hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, reynslulausn eða náðun. 

Lögreglunni ber að greina þér frá ástæðum þess að þú ert handtekinn og það má ekki halda þér lengur en nauðsyn krefur.

Framkvæmd handtöku

Í reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. nr. 651/2009 má sjá ítarlegar upplýsingar um handtöku, skýrslutökur og annað. Við hvetjum fólk til að kynna sér efni hennar.

Réttur til bóta vegna handtöku:  

Handtaka felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. ferðafrelsi og persónufrelsi. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að allir sem lögreglan handtekur eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.

k. Gæsluvarðhald

Gæsluvarðhald er tímabundin frelsissvipting sem lögregla getur beitt í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls. 

Gæsluvarðhald er ekki afplánun en ef einstaklingur er síðar dæmdur til fangelsisvistar þá dragast dagarnir í gæsluvarðhaldi oftast frá þeim tíma. 

Við beitingu gæsluvarðhalds þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt og lögreglan þarf leyfi dómara (dómsúrskurð).

Gæsluvarðhald getur verið með eða án einangrunar/annarra takmarkana. Gæsluvarðhald án takmarkana kallast lausagæsla. 

  • Einangrun: Fangi er stærstan hluta sólarhringsins lokaður inni í fangaklefa. Hann fær engar heimsóknir og ekki að vera í samskiptum við aðra fanga en er heimilt að tala við lögmann sinn, fangaverði, lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk. 

  • Lausagæsla: Fangi er innan um aðra fanga og hefur sömu réttindi og skyldur og þeir.

Skilyrði gæsluvarðhalds: 

Sakborningur verður að hafi náð 15 ára aldri og það verður að vera rökstuddur grunur um að hann hafi framið brot sem varðað getur fangelsi. 

Þá þarf eitthvað af eftirfarandi skilyrðum einnig að vera til staðar: 

a. Rannsóknarhagsmunir 

i. Algengast og tengist til dæmis spillingu á sönnunargögnum 

b. Hætta á flótta eða undankomu 

i. Við meðferð máls og meðan rannsókn er í gangi 

c. Hætta á endurteknum brotum 

i. Síbrotagæsla 

d. Nauðsynlegt til varnar árásum 

Að lokum er heimilt að fara fram á gæsluvarðhald yfir aðila, þó að skilyrði a-d. séu ekki til staðar, ef grunur leikur á að sakborningur hafi framið brot sem getur varðað 10 ára fangelsi og það telst nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Hér er þá átt við brot eins og nauðgun, manndráp, alvarlega líkamsárás, rán o.þ.h. Hvað „almannahagsmuni” varðar þá er afstaða Eiríks Tómassonar lagaprófessors að þessu ákvæði sé fyrst og fremst „ætlað að lægja öldur í þjóðfélaginu, ekki síst í kjölfar þeirra alvarlegu ofbeldisbrota sem varði 10 ára fangelsisrefsingu, en slík brot [eru] að öllu jöfnu svívirðileg í augum almennings.“

Sjá nánar XIV. kafla sakamálalaga og 67. gr. Stjórnarskrár.


Réttur til bóta vegna gæsluvarðhalds:

Gæsluvarðhald felur almennt í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum fólks, t.d. ferðafrelsi og persónufrelsi. Af þeim sökum hefur löggjafinn ákveðið að allir sem hnepptir eru í gæsluvarðhald eigi rétt á bótum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar hér.