6. Verð ég að svara spurningum lögreglunnar?

Þú verður alltaf að svara því hvert nafnið þitt er, kennitala og lögheimili (2. mgr. 58. gr. sakamálalaga). 

Það gilda svo mismunandi reglur um það hvort þú þurfir að mæta í skýrslutöku og svara öðrum spurningum lögreglunnar eftir því hvort þú telst sakborningur eða vitni í málinu. Þá skiptir það einnig máli þegar kemur að skýrslutökum fyrir dómi og hjá lögreglu. Þar sem þú nýtur meiri réttinda sem sakborningur er venjan og eðlilegt að lögreglan veiti þér í vafatilvikum réttarstöðu sakbornings.


Skyldur sakbornings

Ef þú ert með réttarstöðu sakbornings í sakamáli þá verður þú að mæta í skýrslutöku hjá lögreglu. Ef þú ert ekki viss um stöðu þína þá ber lögreglu að svara þér því hvort þú teljist vitni eða sakborningur. 

Sértu með stöðu sakbornings ber þér ekki skylda til þess að svara spurningum lögreglunnar eða ræða við hana að nokkru leyti. Þú þarft ekki að svara spurningum hennar um málið eða nokkuð annað ( sjá: 2. mgr. 64. gr. og 2. mgr. 113. gr. laga um meðferð sakamála).

Ef þú svarar lögreglunni og lýgur að henni þá verður þér ekki refsað fyrir það (1. mgr. 143. gr., sbr. og 2. mgr. 146. gr. almennra hegningarlaga). 

Það getur þó auðvitað verið notað gegn þér ef það kemst upp um lygarnar, t.d. þannig að þér er síður trúað þegar þú segir satt (hefur áhrif á trúverðugleika þinn). 

Ef þú hins vegar játar og aðstoðar lögreglu við rannsóknina þá gætir þú fengið refsinguna þína lækkaða/mildaða, sbr. 74. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.

Skyldur vitnis: 

Ef lögreglan hefur samband og vill fá þig til skýrslutöku sem vitni þá ber þér ekki skylda til þess að mæta í skýrslutökuna (2. mgr. 61. gr. sakamálalaga). Ef þú neitar að mæta til skýrslutöku eða neitar að svara spurningum hjá lögreglunni þá getur lögreglan leitað til dómara og fengið hann til þess að taka af þér skýrslu fyrir dómi (59. gr. sakamálalaga). Öllum sem náð hafa 15 ára aldri er skylt að mæta fyrir dóm til að gefa skýrslu. 

Ef þú mætir í skýrslutöku hjá lögreglu þá ber þér skylda til þess að segja satt og rétt frá. Ef þú segir vísvitandi/viljandi rangt frá atburðum þá getur það varðað fjögurra ára fangelsi (XV. kafli alm. Hgl.).

Þau sem eru tengd sakborningi í málinu með eftirfarandi hætti þurfa ekki að gefa skýrslu fyrir dómi eða hjá lögreglu: 

  • Maki eða sá sem hefur verið maki sakbornings

  • Foreldrar, ömmur og afar, börn, barnabörn o.s.frv. og systkini sakbornings. Sama á við um þau sem eru ættleidd.

  • Stjúpforeldrar og stjúpbörn

  • Tengdaforeldrar og tengdabörn 

  • Getur fallið hér undir ef þú ert fósturforeldri, fósturbarn, sambúðarmaki, unnusti eða álíka náin(n/ð) sakborning

  • Verjandi sakbornings, nema sakborningur leyfi

Þú þarft ekki að svara spurningum sem fela í sér að þú játir í leiðinni á þig refsiverðan verknað eða svara atriðum sem fela í sér „siðferðislega hnekki” fyrir þig eða „tilfinninganlegt fjárhagslegt tjón”. 

Þá er ýmsum fagstéttum óheimilt að svara til um atriði sem þau fá vitneskju um í starfi, sjá nánar 119. gr. sakamálalaga. 

Ef vitni óttast að ákveðnar upplýsingar sem það gefur lögreglu kunni að setja líf þess, heilbrigði eða frelsi í hættu, þá getur það óskað þess að engir aðrir en lögreglan, dómari og ákæruvaldið fái aðgang að þeim. 

Lögreglan og dómari eiga að láta þig vita af öllum þessum undantekningum ef tilefni er til.

Framkvæmd skýrslutöku sakborninga og vitna 

Í reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. nr. 651/2009 má sjá ítarlegar upplýsingar um skýrslutökur vitna og sakborninga hjá lögreglu. Við hvetjum fólk til að kynna sér efni hennar.